11.2.2008 | 15:58
maður verður að bjarga sér
Ég var með plan í morgun. Þar sem ég var ekki enn búin að skila 2 bókum á bókasafnið fyrir hana Magneu (átti að skila þeim í byrjun jan) ákvað ég að nú væri kominn tími á plan...annars verða þær bara hér hjá mér. Svo planið gekk semsagt út á það að taka bækurnar með í vinnuna og fara síðan úr strætó í lækjargötunni og rölta á bókasafnið. Og þar sem mig vantaði eitthvað appelsínu/brúnt í mósaik ákvað ég að kíkja í kassann fyrir utan Fríðu frænku... (og svo kom auðvitað snjóbylur en það er ekki aðalefni sögunnar). Þar sem ég vinn úr gömlum diskum og slíku í mósaikið mitt er erfitt að hengja sig á að vanta einhvern ákveðinn lit og ég vildi ekki fara inn í búðina því það getur verið soldið hættulegt fyrir budduna. Allavega þá var ég þvílíkt heppin því í kassanum að þessu sinni voru fullt fullt (fullt) af diskum sem ég get notað....og appelsínu/brúnir (fyrir nýju hafmeyjuna) og á 50 kr stykkið....frábært...svo planið var inn að borga og á bókasafnið... þegar inn var komið gáfu þær mér risastóran fullan poka af diskum, skálum, bollum og öllu mögulegu....þær eru alveg yndislegar!! Ég hef nokkrum sinnum fengið svona poka hjá þeim og það eru alveg jólin hjá mér þegar það gerist...svo þurfti ég semsagt að burðast með pokann á bókasafnið og heim. Ég er viss um að pokinn var 25 kíló...lágmark. Alla leiðina heim var ég alltaf svona að kíkja aðeins í pokann og sjá hvaða gersemar leyndust þar...ég er svo hrikalega forvitin. Svo datt ég auðvitað rétt áður en heim var komið, og beint ofan á pokann en ekkert brotnaði, sem reyndar skiptir ekki máli þar sem ég brýt þetta allt hvort eð er. En í pokanum leyndist ótrúlega falleg bleik skál með loki sem er alveg tilvalin fyrir kartöflur (hún er hvort eð er of þykk til að nota).
Ég og pabbi fórum á Rambó í Háskólabíó í gær. Rambó er náttúrulega últra kúl sem er frekar fyndið en það var sko ekkert fyndið við ofbeldið....jeremías eini og allir hans frændur. Í hlénu áttaði ég mig á því að ég var alveg á fullu að sálgreina bæði Rambó og vondu kallana. Ég held að svona stráka myndir séu ekkert hugsaðar fyrir það neitt. En hún er mjög spennandi og hin besta skemmtun.
Mikið rosalega fara þessar nýju mjólkurauglýsingar í mig... og það fer líka í mig að þær skuli fara í mig. Ég drekk sjálf ekki mjólk og hef ekki gert í 12 ár og lít ekkert út eins og langt leiddur sjúklingur eða verra eins og þetta fólk í auglýsingunni. Mjólk er ekki eini kalk gjafinn eins og þeir eru að reyna að halda fram. Sjálf drekk ég 2 glös af möndlumjólk á dag og það fullnægir kalkþörf dagsins. Svo er bara að vera duglegur að nota sesamfræ og dökkgrænt grænmeti, ásamt ýmsu öðru. Svona heilaþvottur fer allavega ekki vel í mig og ég er ekki sú eina sem þoli ekki þessar auglýsingar....en nóg af þessari neikvæðni.
Athugasemdir
Hahahaha brilljant að græða heila kartefluskál sem þær hefðu pottþétt selt á nokkra þúsundkalla:)
Magnea (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 22:13
Hey gaman að sjá blogg frá þér. Haltu svona áfram svo að ég geti kíkt reglulega og hlegið :-)
Birna frænka (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.