16.4.2008 | 13:40
Dúkkuhús
Á 18 ára afmælinu mínu fékk ég dúkkuhús frá mömmu og pabba. Það var ósamansett og mér fannst þetta frekar flókið allt saman. Það var dúkkuhúsabúð á vesturgötunni (þar sem kirsuberjatréð er núna) og þar voru líka keypt einhver húsgögn sem ég fékk svo í jólagjöf minnir mig. Ég málaði húsið ljósgrænt, setti helminginn saman en svo endaði það uppi á háalofti í svörtum plastpoka.
Þangað til fyrir um 6 árum síðan að ég náði í húsið, sem var ótrúlega heilt eftir allan þennan tíma og ég tók til við að klára það.
Ég pantaði frá englandi rafmagn í húsið og ljós, veggfóður, teppi, vegg- og loft lista og þau húsgögn sem upp á vantaði. Parketið bjó ég til úr íspinnum, mat úr fimoleir og hitt og þetta úr því sem til féll og hugmyndaflugið sagði til um.
Í húsinu býr ung kona ásamt lítilli dóttur sinni. Hún fékk húsið á góðu verði þar sem það var bæði gamalt og orðið lélegt og þurfti að gera mikið fyrir það. Það er nú allt á góðri leið núna, á bara eftir að sauma nokkrar gardínur og svona. Pabbi hennar er að hjálpa henni að taka garðinn í gegn, hann er kominn á eftirlaun og hefur góðan tíma kallinn til að hjálpa henni. En verktakinn (ég) er hinsvegar ekki alveg að standa sig hvað garðinn varðar. Grindverkið er bara komið upp að hálfu, ekki búið að laga göngustíginn að húsinu og svo á alveg eftir að ganga frá sorpkofanum, gera ræktunar beð og setja niður plöntur. Reyndar búið að búa til litla tjörn en ekki ganga frá í kringum hana og svo framvegis. Sami verktaki er að byggja blómabúð sem konan á og þetta er að ganga frekar hægt. Svo er nú ástin búin að blómstra aldeilis í húsinu undanfarið og nýji kærastinn er fluttur inn, voða rómó allt saman. Reyndar hefur saumkonan (ég) ekki enn saumað föt á kall greyið svo hann liggur alltaf nakinn uppi í rúmi sem gengur nú ekki mikið lengur, lágmark að hann fái allavega slopp. Svo voru rafvirkjar að vinna í garðhúsinu um daginn og tókst þeim að brjóta það svo það þarf að líma það eitthvað upp.
En semsagt þetta er svona hobbý hjá mér, verður einhverntíman tilbúið en þangað til stendur það í stúdíóinu mínu og gleður allt litla fólkið sem kemur í heimsókn.
kveðja
Hrönnsa
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.