27.4.2008 | 19:59
Vorið og fleira skemmtilegt
Í morgun vaknaði ég með lagið ´´vorið er komið og grundirnar gróa (eða er það glóa?)´´ sem skrámur söng svo vel þarna um árið. Það er líka búið að vera svo yndislegt veður í dag svo þetta passaði mjög vel. Svo kíkti ég aðeins á mömmu og hún snarhætti víst við að fara norður því þar er farið að snjóa og spáir kólnandi. Henni finnst nógu kalt hér (enda nýkomin frá Indlandi konan) svo hún leggur ekki í meira í bili. Skiljanlegt alveg.
Ég er búin að vera að dunda mér í að koma íbúðinni í lag aftur þar sem málararnir eru búnir. Oooh það er svo fínt hjá mér núna. Ég er að reyna að minnka dót í kringum mig sem gengur nú bara nokkuð vel, veit ekki hvaðan allt þetta dót kemur svei mér þá, allavega tek ég engan þátt í því að drösla þessu hingað heim. En vinnuaðstaðan er orðin rosalega góð og er ég glöð með það. Ég ,,fann´´ nú ýmislegt við tiltektina, 2 bakka sem á eftir að fúga, nokkur bútateppi sem þarf að klára, sjal sem ég þarf að klára að prjóna, peysu sem á eftir að hekla hálsmálið á og nokkuð af dúkkufötum sem á eftir að klára líka. Semsagt ágætt að taka til annað slagið.
Það er reyndar smá vesen með matreiðslubækurnar. Málið er það að ég á alveg óeðlilega mikið af þeim, en nota þær allar eða fletti þeim mjög oft allavega. En núna er ég í einhverju mínimalista stuði (já eða eins nálægt því og ég kemst) og vil ekki hafa 50 bækur í eldhúsinu (án gríns þá er ég ekki að ýkja, maður getur jú alltaf á sig matreiðslubókum bætt). Einhvernveginn tókst mér að velja úr þær sem ég nota mest og svo er bara spurning hvað verður um restina. Svo raðaði ég bókunum í stofunni eftir lit (hef of mikinn tíma aflögu semsagt) og núna eru allar ,,vinnu´´ bækurnar komnar inn í stúdíó. Semsagt ég á rosalega mikið af bókum og hananú og halelúja með það.
Á morgun og þriðjudag eru svo hráfæðinámskeið og svo fæ ég pottasettið mitt á miðvikudaginn..vúhúuuu hlakka svooo til!!! Spennende og dejligt....
Muniði eftir þáttunum dharma and greg sem voru sýndir á rúv í denn? Ég er búin að vera að horfa á fyrstu seríuna og þetta er náttúrulega bara snilldarþættir. Verð að redda mér næstu seríu, ekki spurning. Ég er að bögglast í að klára útsaumspúða sem ég fann hálfkláraðann (hvað er þetta með mig?) og þessir þættir eru einmitt málið til hafa í gangi við saumaskapinn.
jæja, lífið bíður eftir mér...
knús á ykkur
Hrönnsa
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.