19.6.2008 | 19:30
saumaflæði með smá æði
Ég hef setið og saumað undanfarið. Þegar maður er á leiðinni til útlanda þar sem kannski (mögulega) kemur sól þarf að sauma nokkur pils (svona eins og fjögur) og lita sumar jakkann ásamt ýmsu öðru sem til fellur. Ég vaknaði semsagt um klukkan 8 á 17 júní og byrjaði að sauma og saumaði mest allann daginn. Fór svo í heimsókn til pabba og Hafdísar til að kveðja þar sem þau skötuhjúin eru að fara í frí og ég hitti þau ekki aftur fyrr en í haust (sagði ég í haust?? úff).
Ég hef haft smá áhyggjur af því hvað ég á að hafa með mér af mat á ferðalaginu mínu. Þegar ég verð svöng fæ ég hausverk og verð pirruð og ég nenni ekki að standa í því. Ég get heldur ekki stólað á það að finna eitthvað við hæfi á flugvöllum (eða í flugvélinni)og þarf að undirbúa þetta vel. Ég og Fjóla erum komnar á þessa niðurstöðu: bananar, harðfiskur, epli, avakadó (læt mig dreyma um papaja líka), grænt te duft (get sett það út í vatnsflöskur sem ég kaupi, maður má víst ekki taka með sér vökva lengur) og svo kannski að baka múffur eða brauðbollur. Allar uppástungur um ferðavænan mat eru vel þegnar.
Þegar maður hefur áhugamál að þá fylgir því alltaf eitthvað dót ekki satt?? Mitt vandamál er það að ég á nokkuð mörg áhugamál og þeim fylgir öllum mikið dót. Ég er með fleiri fleiri dalla af brotnum diskum og bollum, efni í kassavís, heila kommóðu af dóti fyrir dúkkuhúsið (veggfóður, teppi, leir og þannig), garnafganga og ónotað garn og svo mætti lengi telja. Einnig eru ýmis (hóst...ansi mörg) verkefni í miðjum klíðum á öllum sviðum. Mitt stóra verkefni undanfarna daga hefur verið að pakka ölllu draslinu. Ó já dömur mínar og herrar ég þurfti að pakka öllu saman og fara með það niður í geymslu ásamt fötunum mínum úr fataskápnum því ég ætla að lána íbúðina mína í sumar og viðkomandi vill sofa í svefniherberginu (ég er löngu flúin úr herberginu og sef í stofunni). Þetta gengur frekar hægt, aðallega af því að ég var líka að sauma en núna verður þetta að ganga aðeins hraðar því ég fer úr íbúðinni um helgina...hugsið nú til mín þegar ég fer ferð númer 543 niður í geymslu.
Í dag skellti ég mér loksins á sýninguna hans Viggó Mortenssen ,,Skovbo´´. Mér fannst allt of mikið af myndum fyrir minn smekk og sumar eiginlega ekki eiga heima þarna en svo voru auðvitað margar rosalega fallegar eða flottar (eða bæði). Ég er voðalega glöð að hafa skellt mér, það er ekki hægt að missa af þessu. Fyrir þá sem ekki hafa farið endilega skellið ykkur. Það er nú ekki svo mikið af trjám á íslandi svo um að gera að virða þau erlendu vel fyrir sér (jafnvel þó það sé bara á myndum).
Ertu búin(n) að faðma einhvern í dag???
H
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.