25.5.2008 | 11:30
Júró júró júró
Jæja, þá er júróvisjón yfirstaðið og eðlilegt líf getur hafist aftur. Ég verð nú að segja að ég var mjög hissa þegar Britney Spears2 fór að hala inn stigum en svo yfirtók þessi Rússneski. Lagið hans er svona ,,hmm ætti ég að poppa´´ lag finnst mér, ég mundi ekki einu sinni hvernig það hljómaði þegar var verið að gefa stigin en ég hlýt bara að hafa svona afleitann tónlistarsmekk. Það er spurning. Ég var reyndar komin svo langt inn í Inspector Morse þátt að það var alveg á mörkunum að ég nennti að færa sjónvarpið og tengja það við loftnetið en á síðustu stundu gerði ég það nú. Gaman að vera með og allt það.
En fannst ykkur ekki gaman að Ísland fékk actually stig!! Brilljant alveg. Maður er orðin svo vanur hinu að þetta kom manni alveg í opna skjöldu...jahérna hér. Ég var náttúrulega búin að vera með herferð um alla evrópu um að gefa okkur stig svo það hlýtur að hafa skilað sér. Annars helltist yfir mig tiltektaræði við stigagjöfina svo nú er íbúðin í rúst, eða vinnuherbergið réttara sagt þar sem ég hendt öllu þangað inn. Þarf að laga það í dag.
En hvað haldiðiði... ég keypti mér prentara í vikunni..ú je. Ég átti fantagóðann prentara fyrir nokkrum árum en var með hann úti í garði og hann þoldi það ekki blessaður (lélegt finnst ykkur ekki?) og er búin að vera á leiðinni að kaupa prentara síðan en einhvernveginn hefur það ekki gerst.... þangað til núna. Semsagt ný ryksuga og nýr prentari.... hvað verður næst?? Mig langar reyndar rosalega í nýtt straujárn þar sem mitt er búið að detta soldið oft í gólfið og er orðið brotið svo það sést inn í það á tveim stöðum en á meðan það virkar læt ég það duga. En ég semsagt er prentandi út hægri og vinstri og þvílíkt fjör á þessum bæ.
Litahringurinn er alveg að smella saman. Ég strauaði í gær 8 metra af hvítu efni sem fer í bakgrunn, bak og kannt.... 8 metrar strauaðir báðum megin...geri aðrir betur...
Jæja, það er tiltekt og saumerí sem bíður mín í dag....
knús á ykkur
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2008 | 13:37
komin heim
Dallas city stóð undir væntingum að vanda. Yndislegt að hitta fólkið mitt og rölta um í góða veðrinu.
Það er alltaf erftitt að kveðja ástvin. Hrönn frænka var mögnuð kona sem mun lifa áfram með okkur í minningunum okkar um hana. Við útförina talaði presturinn um sorgina og hvernig okkar samfélag tekst á við sorgarferlið. Mér fannst þetta mjög gott innslag hjá honum og átti vel við. Tíminn læknar ekki öll sár því sárin skilja eftir ör á sálinni. Hinsvegar held ég að tíminn hjálpi okkur að lifa með sorginni. Við húskveðjuna var ég alveg að brotna og þá er mér litið upp og sé þar mynd af Hrönn frænku í þvílíku múnderingunni, með risastór sólgleraugu, fjaðrahatt og blómakjól að taka þátt í einhverju leikriti og ég gat ekki annað en brosað.
Hrönn frænka ræktaði sumarblóm og var með þetta út um allann Dalbæ eflaust við mismikinn fögnuð annarra íbúenda. En núna eru blómin hjá ömmu og ekkert smá magn. Ég fékk eitthvað af stjúpum og öðru sem við vitum ekki hvað er og ég setti þetta niður í garðinn minn á fimmtudaginn (sem varð til þess að ég gleymdi júróvisjón en mér var nú nokk sama). Restin af blómunum fer svo upp á leiði til hennar.
En hvað haldiði! Mín er bara farin að taka lýsi OG omega 3 fiskiolíu á morgnana... já ég veit, ég er þvílík hetja!! Sko mér var kennt trikk sem svínvirkar og það er svona: fyrst setur maður í munninn sterkan safa en kyngir ekki (ég nota epla/mango safa) og svo lýsið og galdurinn er að kyngja þessu saman. Þá ropar maður engu lýsi upp yfir daginn... þvílík snilld alveg. Þetta ættu þeir hjá lýsi að fara í herferð með og kenna fólki.
Ég er í þvílíku prjóna, sauma og mósaik stuði þessa dagana og hef varla tíma til að anda. Nóg að gera semsagt sem er alltaf jákvætt.
Jæja, nóg í bili.... góða skemmtun yfir júró í kvöld
kveðja Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2008 | 17:30
Fluga á vegg
Jæja þá erum við mamma á leið norður á Dalvík í jarðarför. Tilefnið mætti vera skemmtilegara aðsjálfsögðu en ég hlakka samt til að hitta familíuna. Ég er búin að pakka og er með allt í litlum töskum og pokum þar sem ferðatöskurnar tvær sem ég á voru alveg innst inni í geymslunni og ég nenni ekki að ná í þær. Var að muna eftir því að síðast þegar ég fór norður gerðist nákvæmlega það sama og amma var svo hneiksluð á mér að hún gaf mér ferðatösku. En núna gisti ég ekki hjá henni svo hún kemst ekkert að þessu (uss allir!).
*rífa niður rófur fyrir bílferðina..check
*kaupa karob súkkulaði þegar sykurlöngunin kemur í lok ferðar.... check
*blanda grænan drykk fyrir orku á leiðinni...check
semsagt til í slaginn :)
Einu sinni á ári fæ ég algjört æði fyrir Inxs tónleikunum á Wembley stadium (frá 1994 minnir mig). Ég vakna með lögin í hausnum, söngla þau í hausnum í vinnunni og horfi svo á tónleikana 4 sinnum á dag í um viku eða svo. Ég er nokkuð viss um að nágrannarnir mínir eru alveg að fíla að ég fari í burtu í nokkra daga núna.
jæja, kellan var að hringja og er á leiðinni... eigið þið góða viku dúllur
kveðja
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2008 | 22:30
Litlar hugleiðingar
Ég var stödd ofarlega á laugarvegi í dag, eiginlega alveg við Nóatún. Staðsetning kemur sögunni samt ekkert við. Allavega. Ég stóð og beið eftir græna kallinum til að komast yfir götuna (á leiðinni í klippingu sjáiði til) þegar maður í þvílíka vinnugallanum merktur Vegagerðinni í bak og fyrir, gengur til mín og segir ,,excuse me but do you speak english?´´ jú jú ég játti því. Þá bendir hann á skilti og segir ,,can you please tell me what this means?´´ Á skiltinu stóð ,,hjáleið´´. Hann útskýrði vandlega fyrir mér að hann þyrfti nefnilega að loka gangstéttinni og hefði verið látinn hafa þetta blessaða skilti sem hann vissi ekkert hvað stóð á. Semsagt ef það eru óeðlilegar umferðartafir ofarlega á laugarvegi er hægt að kenna mér um þar sem ég beindi skiltinu eitthvað (eða þið vitið örinni á skiltinu svo ég geri mig nú skiljanlega).
Því næst lá leið mín í búð til að kaupa inneign í símann minn en afgreiðslukonan horfði bara á mig og sagði ,,sorry I don´t speak Icelandic´´. Jamm svona er ísland í dag. Mér finnst frábært að hafa þessa fjölbreyttni í mannlífinu okkar og held að ísland hafi alveg þurft á því að halda að fá þessa flóru hingað en ég held að við séum alls ekki að standa okkur í því að hjálpa þessu fólki að læra tungumálið okkar. Tungumálakennslan á ekki að kosta neitt svona fyrir það fyrsta. Við verðum að vera duglegri að hjálpa til við aðlögunina. Það er örugglega eðlilegt að þetta taki smá tíma hjá okkur en ég vona svo innilega að það komi smám saman. Mig langar ekki að sjá Hagkaup auglýsa á pólsku aftur svona til dæmis.
Ég er þakklát fyrir:
*rigningu
*prjónana mína
*agave sýróp
*bláber
Ég er farin að vakna fyr á morgnana svo ég geti tekið mér tíma á leið til vinnu og gengið í gegnum gamla kirkjugarðinn. Það er nefnilega ekki hægt að arka þar í gegn. Maður verður að gefa sér smá tíma, lesa á leiðin og stoppa og hugsa. Alveg sama hversu oft ég fer þarna í gegn að þá sé ég alltaf eitthvað nýtt eða með nýjum augum. Undanfarið hefur veðrið verið svo yndislegt svo þetta hafa verið góðir morgnar. Nema reyndar í morgun var smá rigning en hva... maður lætur það nú ekki á sig fá þó nokkrir dropar falli.
Jæja, ég verð með Birnu frænku í Vogarskóla að selja dót og drasl (oh svo gaman) á morgun (laugardag). Hlakka mikið til.
Svo eru framundan 3 matreiðslunámskeið og tími hjá miðli. Svo ennþá meira til að hlakka til.
knús á ykkur inn í helgina
Hrönnsa
p.s: Ég er að prjóna mér sumar peysu úr þessu garni sem er á myndinni. Bleikt að sjálfsögðu... þarf að spyrja?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2008 | 19:43
hlátur og gátur
Ég gekk í gegnum hljómskálagarðinn um daginn á leið í vinnu og garðurinn ilmaði af sítrónuilm. Frekar furðulegt. Skýringin kom stuttu seinna þar sem ég gekk fram á 3 menn á fullu við að taka staurakrot af semsagt staurum og öðru í garðinum og límmiða með þvílíku vélinni. Verð nú að segja að ég kann betur við náttúrulega ilminn en gaman að vel er hugsað um garðinn.
Í síðustu viku fór ég í elko og keypti mér ryksugu þar sem mín dó um daginn. Ég fór einhverja millileið í verði (að mér fannst) en þegar ég prófaði gripinn heima gerði hún ekki það sem hún átti að gera... það er soga hluti upp af gólfinu. Svo ég fór í dag og skilaði henni og keypti helmingi dýrari (og betri) og er gersamlega ástfangin!! Mér líður eins og þegar Adrian Mole var að lýsa nýja gíra hjóli besta vinar síns.... (ef þið hafið lesið Mole þá fattið þið). En hversvegna í óssköpunum eru ryksugur alltaf svona ljótar? Eru þetta einu heimilistækin sem er ekki hægt að gera krúttleg? Reyndar er til ryksuga í englandi sem heitir Henry og er eins og kall, voða sætur. En það er ekki til neinn Henry í elko. En..pff.. þvílík ryksuga maður!!
Helginni eyddi ég í kolaportinu (eða laugardegi og mánudegi) og tókst heldur betur vel til. Þetta er rosalega gaman en maður verður líka rosa þreyttur á eftir. Það var þreytt og sæl díva sem gekk út í lok dags í gær.
Ég fór til hómópata í síðustu viku og ég má ekki borða baunir (engar!) og engar hnetur heldur svo ég verð að gjöra svo vel og læra að elda kjöt fyrir prótein. Geri þetta í 6 vikur og fer svo aftur í mælingu og verð þá búin að ,,bústa´´ mig vel upp af öllum þessum vítamínum sem hún setti mig á. Vonandi þoli ég baunirnar og hneturnar aftur en er ekki viss því það er víst svo mikið nikkel í báðum. En ég þarf að taka lýsi og Omega frá lýsi líka... á ekkert of auðvelt með það reyndar en hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna ha?
jæja krúttin mín, verið góð við hin dýrin í skóginum
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2008 | 20:42
Frá unglingsárunum
Sem unglingur var ég mjög þunglynd. Og ég á við mjög mjög þunglynd og örugglega ekki auðvelt að búa með mér eða vera í kringum mig yfirhöfuð. Þegar ég var 17 ára gekk ég með ljóðabókina ,,mold í skuggadal´´ eftir Gyrði Elíasson á mér í langan langan tíma og kunni hana afturá bak og áfram. Gyrðir bjó stutt frá mér og alltaf þegar ég sá hann hélt ég að ég myndi fá hjártaáfall mér fannst hann svo æðislegur eitthvað.
En allavega...
Einu sinni í söguprófi að þá átti að skrifa ritgerð aftast, sem ég var eitthvað ekki í stuði fyrir svo í staðinn skrifaði ég upp ljóðið ,,Löngun´´ (síðasta ljóðið í bókinni) og það er svona:
Ég vil sofna
lengsta svefninum
með náttblindugleraugun í rökkri
með mosastein fyrir svæfil.
Það var allt brjálað á kennaraskrifstofunni og haldinn neyðarfundur til að koma mér til hjálpar sem fyrst enda var þetta túlkað sem mitt ákall á hjálp. Það getur vel verið að það hafi verið eitthvað svoleiðist í gangi undir niðri, það var allavega ekki meðvitað. Ég vildi ekki sjá þessa aðstoð sem bauðst (enda 17 ára unglingur), ætlaði sko ekki að liggja á einhverjum bekk og tala við gamlan kall um einhverjar tilfinningar. Ég sá þetta allavega þannig fyrir mér. Hins vegar leitaði ég mikið til skólastjórans, man ekki hversvegna ég byrjaði á því samt. Ég sat hjá honum heilu tímana stundum og talaði og talaði og grét og grét. Stundum lagði ég mig í sófann hans á eftir og jafnaði mig eða sofnaði. Hann var svo yndislegur alltaf við mig og alveg sama hvað var að, alltaf hlustaði hann. Á tímabili var ég að gefast upp á skólanum og ætlaði að hætta en honum tókst að stappa í mig stálinu og fá mig til að vera áfram. Fyrir það er ég mjög þakklát. Fyrir allt sem hann gerði fyrir mig er ég mjög þakklát, bara að hann var til staðar fyrir mig á þennann hátt. Ég veit ekki hversvegna ég leitaði frekar til hans en t.d námsráðgjafans sem var líka rosalega fínn. Ég var einu sinni send til hans vegna lélegrar mætingar og mætti haldandi á bók (eins og alltaf á þeim tíma). Við töluðum um bókina í 2 klukkutíma og eftir það stoppaði hann mig alltaf á göngum skólans til að sjá hvaða bók ég héldi á í það og það skiptið.
Mér var hugsað til þessa alls í dag eftir að ég talaði við geðlækninn minn. Hann hefur aldrei séð mig svona glaða og hamingjusama og það er alveg ótrúlegt hvað ég er komin langt og líður vel. Sérstaklega auðvitað ef ég fer svona rosalega langt aftur.
Ég les ennþá Gyrði og mun alltaf gera býst ég við en ég kikna ekkert í hnjánum lengur þó ég mæti honum út á götu en brosi bara út í annað :)
Verum glöð saman
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2008 | 18:39
Brall og mall
Ég elska byggingavöruverslanir. Veit ekki hvers vegna en ég gæti vel eitt heilu dögunum inni í Byko og Húsasmiðjunni. Hvað er svona skemmtilegt þar inni eruð þið kannski að hugsa?? Jú, þar eru ekkert nema litlir (og stundum stórir) hlutir sem ég hef ekki hugmynd um hvað er eða í hvað þeir eru notaðir en mjög gaman að giska (ég er svo hrikalega forvitin sjáiði til). Hugsa sér alla þessa hluti sem einhverjum fannst nauðsynlegt að finna upp til að létta sér lífið, ó ef ég bara vissi hvað ætti að gera við þá alla! Nú svo var verið að opna stóra Byko búð úti á granda (við hliðina á krónunni) og ég auðvitað þangað. En því miður hafði ég bara hálftíma þar til þeir lokuðu. Hvað er málið með að loka svona snemma í svona stórri búð!! Svo ég þarf að fara aftur fljótlega við tækifæri.
Ég opnaði ísskápinn minn áðann, sem er fullur af mat greyið, og tók eftir því að ég á hvorki meira né minna en 9 paprikur. Frekar furðulegt, ætli þær séu ekki bara farnar að fjölga sér þarna inni? Þær eru allar grænar eða rauðar, engar gular eða appelsínugular... uss uss. Svo ég hugsaði með mér semsagt að gera fylltar paprikur um helgina. Svo þurfti ég að erindast niður í bæ og á heimleið var ég að fá hungur-höfuðverk og þar sem ég reyni nú að forðast þá að þá hoppaði ég inn á Grænan kost. því miður var ekki til neitt glútenlaust þar (nema súpa og mig langaði ekki í hana) svo þá fór ég upp á Næstu grösum og hvað haldiði að hafi verið í aðalrétt þar?? Jább.. fylltar paprikur. Sem ég auðvitað fékk mér, nammi namm. Það munu koma paprikur út úr eyrunum á mér í lok helgar. Kokkurinn þar gaf mér reyndar papriku ráð sem ég ætla að deila með ykkur. Ef maður eldar fylltar paprikur bara til hálfs að þá er hægt að frysta þær. Ég þarf semsagt ekki að borða fylltar paprikur alla næstu viku.
Ég er komin með pottana mína og að bralla í eldhúsinu. Furðulegt að elda með svona litlum hita. Í gær ,,sauð´´ ég svo fisk án þess að nota vatn og hann var rosalega góður. Mér líst mjög vel á þetta allt saman.
Mig langar í:
*Vita-mix blandara
*Þurrkofn
*Vagúmpökkunarvél (alger snilld)
*þyrlupall í garðinn svo Magnea systir geti smíðað sér þyrlu og komið í heimsókn frá Danmörku hvenær sem hún vill (svona eins og Einar Áskell gerði)
Ég er á leiðinni í kolaportið að selja dót og drasl svo endilga hendið í mig ef þið eruð með eitthvað
Góða helgi
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2008 | 23:07
þakklæti
Mig dreymdi á sænsku í nótt. Það besta við það er auðvitað að ég tala enga sænsku og hef aldrei stigið fæti á sænska jörðu en talaði auðvitað alveg reiprennandi í draumnum í nótt. Kannski ég setji á legg svona þýðingar dæmi á hvaða tungumáli sem er og leysi þetta bara á meðan ég sef ekki slæmt.
Í dag hef ég mikið verið að hugsa um hvað ég er þakklát fyrir margt. Það er svo margt gott að gerast í kringum mig og í mér sjálfri sem er svo yndislegt. Ég gleymi alltof oft að þakka fyrir. Ég held að þetta fylgi alltaf svolítið vorinu. Við tökum ekki bara til í garðinum okkar og þrífum hjá okkur heldur ruslum við ýmsu út inni í okkur líka, hluti eins og tilfinningar og minningar sem við þurfum ekki, eða viljum ekki lengur. En við megum heldur ekki gleyma að setja kærleikann inn í hjartað okkar í staðinn.
Það var svo gaman á hráfæðinámskeiðinu í kvöld. Allir með öll skylningarvit opin og tilbúnir að taka við eins miklum fróðleik og hægt er. Bragðbetri mat hef ég nú sjaldan fengið held ég, allt svo gott og gert í svo mikilli gleði og af svo mikilli alúð sem skiptir jú svo miklu líka því það fer allt í matinn okkar auðvitað. Nú fer spírunargírinn aftur í gang hjá mér, ég er búin að vera allt of löt undanfarið í því en nú fer allt á betri veg hvað það varðar. Langar að gera fullt fullt af tilraunum líka. Mjög spennandi allt saman.
Þessi órói er hjá rúminu mínu og það er svo fallegt hljóðið í honum á kvöldin og nóttunni, yndislegt alveg, nema auðvitað að það sé brjálað rok þá vakna ég á nóttunni og loka glugganum vegna hávaða.
Já munum líka eftir öllu því góða hjá okkur, það eru mín orð til ykkar inn í næstu daga.
knús á ykkur
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2008 | 19:59
Vorið og fleira skemmtilegt
Í morgun vaknaði ég með lagið ´´vorið er komið og grundirnar gróa (eða er það glóa?)´´ sem skrámur söng svo vel þarna um árið. Það er líka búið að vera svo yndislegt veður í dag svo þetta passaði mjög vel. Svo kíkti ég aðeins á mömmu og hún snarhætti víst við að fara norður því þar er farið að snjóa og spáir kólnandi. Henni finnst nógu kalt hér (enda nýkomin frá Indlandi konan) svo hún leggur ekki í meira í bili. Skiljanlegt alveg.
Ég er búin að vera að dunda mér í að koma íbúðinni í lag aftur þar sem málararnir eru búnir. Oooh það er svo fínt hjá mér núna. Ég er að reyna að minnka dót í kringum mig sem gengur nú bara nokkuð vel, veit ekki hvaðan allt þetta dót kemur svei mér þá, allavega tek ég engan þátt í því að drösla þessu hingað heim. En vinnuaðstaðan er orðin rosalega góð og er ég glöð með það. Ég ,,fann´´ nú ýmislegt við tiltektina, 2 bakka sem á eftir að fúga, nokkur bútateppi sem þarf að klára, sjal sem ég þarf að klára að prjóna, peysu sem á eftir að hekla hálsmálið á og nokkuð af dúkkufötum sem á eftir að klára líka. Semsagt ágætt að taka til annað slagið.
Það er reyndar smá vesen með matreiðslubækurnar. Málið er það að ég á alveg óeðlilega mikið af þeim, en nota þær allar eða fletti þeim mjög oft allavega. En núna er ég í einhverju mínimalista stuði (já eða eins nálægt því og ég kemst) og vil ekki hafa 50 bækur í eldhúsinu (án gríns þá er ég ekki að ýkja, maður getur jú alltaf á sig matreiðslubókum bætt). Einhvernveginn tókst mér að velja úr þær sem ég nota mest og svo er bara spurning hvað verður um restina. Svo raðaði ég bókunum í stofunni eftir lit (hef of mikinn tíma aflögu semsagt) og núna eru allar ,,vinnu´´ bækurnar komnar inn í stúdíó. Semsagt ég á rosalega mikið af bókum og hananú og halelúja með það.
Á morgun og þriðjudag eru svo hráfæðinámskeið og svo fæ ég pottasettið mitt á miðvikudaginn..vúhúuuu hlakka svooo til!!! Spennende og dejligt....
Muniði eftir þáttunum dharma and greg sem voru sýndir á rúv í denn? Ég er búin að vera að horfa á fyrstu seríuna og þetta er náttúrulega bara snilldarþættir. Verð að redda mér næstu seríu, ekki spurning. Ég er að bögglast í að klára útsaumspúða sem ég fann hálfkláraðann (hvað er þetta með mig?) og þessir þættir eru einmitt málið til hafa í gangi við saumaskapinn.
jæja, lífið bíður eftir mér...
knús á ykkur
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2008 | 21:09
minning
Í dag eru 4 ár síðan Þórður frændi dó, mér finnst eins og það hafi bara verið í gær sem Magnea systir hringdi í mig. Allann tímann sem ég var á leiðinni til hennar fullvissaði ég mig um að þetta hlyti að vera misskilningur, hann væri bara slasaður en ekki dáinn. Skrýtið hvað hugurinn meðtekur ekki svona sjokk strax.
Elsku kall ég vona að þér líði betur þar sem þú ert núna og að þú kíkir á okkur hin af og til. Mér finnst gott að kveikja á kerti fyrir þig og vin minn og frænda Víði Óla þegar ég þarf að tala við ykkur, eins og í dag.
Myndin hér til hliðar: þetta er uppáhalds hornið mitt í íbúðinni minni þessa dagana. Efri myndina gerði ég þegar Þórður dó en þá neðri gerði Fjóla vinkona og gaf mér. Ugluna fékk ég í stúdentsgjöf frá pabba og hefur hún fylgt mér síðan og kertin eru svo fyrir frændur mína sem fóru báðir allt of ungir frá okkur, Þórður 17 ára og Víðir 25 ára. Báðir kenndu þeir okkur svo ótal margt á þessum stutta tíma, getur verið að sumir hafi einfaldlega klárað þau verkefni sem þeir hafi ætlað sér hér og séu tilbúnir að halda áfram annað? Ég veit það ekki, þetta er flókið og alltaf svo erfitt fyrir okkur hin sem sitjum eftir og söknum.
Eigið góða helgi með fólkinu ykkar
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)