21.4.2008 | 15:06
Í blóma
Það er til spakmæli í búdda sem segir: ,,ef þú átt krónu, notaðu þá helminginn til að kaupa mat fyrir líkamann og hinn helminginn til að kaupa blóm fyrir sálina.´´ Þeir vita hvað þeir eru að tala um þessir búdda munkar ekki satt?
Á gönguferð um bæinn um helgina tók ég eftir því að tré og runnar eru komin með brum sem hlýjar hjarta mitt ótrúlega mikið. Svo eru tvær páskaliljur sprungnar út í garðinum og ég er að fylgjast með þeirri þriðju, mjög spennandi allt saman.
Ég fór á laugardaginn í fríður frænku og hún gaf mér tvo fulla poka af postulíni, yndileg. Fiðrildið gengur vel, allt að koma saman. Ég á örugglega ekki eftir að tíma að selja það eins og ég ætlaði. Þarf að gera annað sýnist mér. Ekki það að ég hafi pláss fyrir svona stórt fiðrildi upp á vegg hjá mér.
Tveir málarar eru að mála hjá mér sem þýðir auðvitað að íbúðin er soldið mikið í rúst en það er í lagi því þetta tekur ekki svo langan tíma. Svo verður líka svo agalega fínt hjá mér þegar þetta er búið. Ég er alveg á fullu að endurskipuleggja alla íbúðina í hausnum, get varla beðið.... spennó spennó...
Mamma er komin heim úr Indlandsreisunni sinni og ég er að fara að hitta hana á eftir. Hlakka til að heyra um ævintýrin hennar. Hún er búin að vera í burtu í 3 mánuði og ég er svooo glöð að fá hana loksins heim aftur, þetta er orðið gott finnst mér.
Ætla ekki að hafa þetta lengra í bili elskurnar mínar
knús á ykkur
Hrönnn
Bloggar | Breytt 22.4.2008 kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2008 | 11:03
mála mála mála
Búin að sauma eitt trélitaveski... fimm eftir... Það er mjög gaman að sauma þau svo það verður nú ekki mikið mál. Í gærkvöldi saumaði ég líka tösku fyrir Veigar Tjörva til að geyma náttfötin sín í og svo er vasi framan á fyrir þá bók sem er verið að lesa (ef hún klárast ekki). Hlakka til að vita hvort hann hefur nokkurn áhuga á að nota þetta, aldrei að vita með 4 ára gutta.
Svona af því að ég bý í leiguíbúð ákvað ég að hafa samband við eigendurna í sambandi við málninguna og var því vel tekið. Svo í gær kom eitt stykki málari til að skoða hérna hjá mér :) Hann byrjar á mánudaginn og ætlar að byrja í stúdíóinu og eldhúsinu... jebb þar sem mesta draslið er sem þýðir að ég verð alla helgina að koma þessu fyrir í stofunni. Fjóla yndislega ætlar að koma á sunnudaginn og hjálpa mér aðeins.... úuu hlakka svooo til, það verður svo fínt hjá mér!! Ég trúi ekki að ég sé búin að búa hér í 6 ár!! Tíminn er svo fljótur að líða. Ég hef aldrei nokkurn tíman búið svona lengi á sama stað áður, ekki einu sinni heima hjá mömmu og pabba því ég var alltaf að skipta um herbergi.
Núna er saumastuðið að ganga yfir og mig er farið að kitla í puttana að gera mósaik svo er komin með fiðrildið mitt stóra á borð inni í stofu, næ vonandi að vinna eitthvað í því þrátt fyrir draslið sem verður hér næstu viku. Ætla að kíkja aðeins niður í fríðu frænku á eftir og kíkja á diska, kemur mér alltaf í rétta gírinn.
Hráfæðinámskeiðið var fært til 29 apríl sem hentaði mér eiginlega betur. Svo fékk ég póst frá Sollu í vikunni þar sem hún spurði mig hvort ég vildi ekki bara koma líka á byrjendanámskeiðið aftur og rifja upp og ætlar hún að bjóða mér á bæði námskeiðin!! Yndislegust alveg:) Það eru nú ekki margir sem myndu gera þetta held ég. Hún veit að ég er að bögglast í að ná heilsu en samt, ótrúlega fallega gert af henni finnst mér.
Jæja góðu vinir, eigið góða helgi, sjáumst í næstu viku. Mamma er að koma frá Indlandi á mánudagskvöldið og ég hlakka svo til að sjá hana og heyra allt um ævintýrin hennar.
pönnsan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 13:40
Dúkkuhús
Á 18 ára afmælinu mínu fékk ég dúkkuhús frá mömmu og pabba. Það var ósamansett og mér fannst þetta frekar flókið allt saman. Það var dúkkuhúsabúð á vesturgötunni (þar sem kirsuberjatréð er núna) og þar voru líka keypt einhver húsgögn sem ég fékk svo í jólagjöf minnir mig. Ég málaði húsið ljósgrænt, setti helminginn saman en svo endaði það uppi á háalofti í svörtum plastpoka.
Þangað til fyrir um 6 árum síðan að ég náði í húsið, sem var ótrúlega heilt eftir allan þennan tíma og ég tók til við að klára það.
Ég pantaði frá englandi rafmagn í húsið og ljós, veggfóður, teppi, vegg- og loft lista og þau húsgögn sem upp á vantaði. Parketið bjó ég til úr íspinnum, mat úr fimoleir og hitt og þetta úr því sem til féll og hugmyndaflugið sagði til um.
Í húsinu býr ung kona ásamt lítilli dóttur sinni. Hún fékk húsið á góðu verði þar sem það var bæði gamalt og orðið lélegt og þurfti að gera mikið fyrir það. Það er nú allt á góðri leið núna, á bara eftir að sauma nokkrar gardínur og svona. Pabbi hennar er að hjálpa henni að taka garðinn í gegn, hann er kominn á eftirlaun og hefur góðan tíma kallinn til að hjálpa henni. En verktakinn (ég) er hinsvegar ekki alveg að standa sig hvað garðinn varðar. Grindverkið er bara komið upp að hálfu, ekki búið að laga göngustíginn að húsinu og svo á alveg eftir að ganga frá sorpkofanum, gera ræktunar beð og setja niður plöntur. Reyndar búið að búa til litla tjörn en ekki ganga frá í kringum hana og svo framvegis. Sami verktaki er að byggja blómabúð sem konan á og þetta er að ganga frekar hægt. Svo er nú ástin búin að blómstra aldeilis í húsinu undanfarið og nýji kærastinn er fluttur inn, voða rómó allt saman. Reyndar hefur saumkonan (ég) ekki enn saumað föt á kall greyið svo hann liggur alltaf nakinn uppi í rúmi sem gengur nú ekki mikið lengur, lágmark að hann fái allavega slopp. Svo voru rafvirkjar að vinna í garðhúsinu um daginn og tókst þeim að brjóta það svo það þarf að líma það eitthvað upp.
En semsagt þetta er svona hobbý hjá mér, verður einhverntíman tilbúið en þangað til stendur það í stúdíóinu mínu og gleður allt litla fólkið sem kemur í heimsókn.
kveðja
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2008 | 15:13
frá mér til þín
Ég vaknaði með lag í hausnum í gærmorgun og mér til mikillar skelfingar komst ég að því (eftir mikla leit) að ég á það ekki til á disk. Þá reddar maður sér á youtube því þegar lag er í hausnum á manni að þá VERÐUR að hlusta á það. Lagið er ,,who is it´´ með Björk. Reyndar er myndbandið mjög flott, ég væri alveg til í svona bjöllu kjól eins og hún er í, reyndar svolítið ópraktískur en maður lætur sig nú hafa það.
Átti mjög fína helgi, matarboð og ferming, mjög ljúft allt saman. Ég mætti allt of snemma í kirkjuna og hlustaði á kórinn æfa sig, var komin með prógramið á hreint semsagt. Presturinn var ótrúlega léttur og skemmtilegur sem gerist nú ekki oft.
Það er búið að vera að flota og lakka þvottahúsið niðri í sameign. Þetta er búið að taka svolítið langan tíma en er orðið voða fínt núna. Á föstudaginn var svo búið að tengja vélarnar og mátti byrja að þvo. Ég hreinlega hljóp niður og setti í fyrstu vélina. Klukkutíma síðar fór ég svo niður með næsta bunka en þá tók á móti mér vatn yfir öllu gólfinu!! Smá panik átti sér stað .... sjitt...hvað á ég að gera?... hljóp svo upp og náði í bala og fægiskóflu og tók til við að ausa og hlaupa út í garð til að hella vatninu. Vatnið kom upp um niðurfallið á miðju gólfinu og það er stíflað svo vatnið kemst ekki neitt (nema í balann minn). Snillingarnir sem sáu um gólfið steyptu niðurfallsgrindina fasta svo við erum núna að bíða eftir pípara til að brjóta upp og laga. Skemmtilegt eða þannig, en ég er nú heppin að vinna í fatahreinsun og hef farið með fötin mín þangað, svona það helsta (já í strætó, ég er þessi sem burðast með risastóra græna taupokann!)
Þegar ég kom heim úr vinnunni í gær voru teppakallarnir svo að klára að leggja þetta líka fína bláa teppi á samegnina, svaka fínt. En lyktin.... úff, ég er búin að vera þvílíkt vímuð og astminn er ekki alveg að höndla þetta. Svo í vinnunni í dag var mér bara óglatt allan tímann, meira eitrið. En þetta varir nú ekki að eilífu.
Talandi um varir, ég er með svo mikið ofnæmi fyrir snyrtivörum en þoli Aveda svo nota það eingöngu, fyrir utan einn varalit frá clinique sem er mjög flottur. Í gær var ég í pæjustuði og með varalitinn, fannst ég svo eitthvað svo skrýtin í vörunum og leit í spegil (í vinnunni) og var þá voru varirnar orðar þvílíkt bólgnar. Meiri vitleysan er semsagt komin með ofnæmi fyrir þessum varalit mínum. Langar í bláan maskara og augnblýant en það er ekki til hjá Aveda núna og hefur bara ekki verið til ógurlega lengi. Sendið bláa strauma á hönnunarliðið hjá þeim (ekki misskilja mig samt!)
Þetta með kannanirnar er enn að ásækja mig því nú var ég að fá eina í pósti... um ofnæmi, nema hvað?
jæja gullin mín, hafið það gott
Hrönnsa
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2008 | 11:59
Helgarstuð
Í gegnum árin hef ég þurft að þola það að oftast þegar ég borða versnar höfuðverkurinn minn eða þá að ég fæ nefrennsli og kláða í húðina. Einhverntíman talaði ég um þetta við lækni sem horfði bara á mig eins og ég væri eitthvað undarleg ,,uuuu læknir ég fæ hausverk ef ég borða´´. Mikið búin að spá í hvort ég sé með ofnæmi fyrir einhverju kryddi eða vörum sem mikið eru notaðar eins og laukur eða tómatar. Stundum er þetta mikið og stundum ekki. Svo núna þegar ég er orðin svona betri í höfðinu að þá truflar þetta mig mikið. Stundum vil ég ekki borða ef ég er mjög góð í hausnum en þá fæ ég bara hungurhausverk í staðinn, smá vítahringur í gangi. Semsagt ekki gaman. Svo þegar ég var á pastanámskeiðinu hjá Sollu um daginn að þá var hún að brasa með einhvern spes pott og við vorum auðvitað mjög forvitin að vita hvað þessi pottur gerði. Þá sagði hún ,,ég er með svo mikið nikkelofnæmi og ef ég borða eldaðan mat nota ég þennan pott´´. Ég er sjálf með nikkel ofnæmi en hef aldrei tengt það við potta svo ég spurði hver einkennin væru og sagði hún ,,jú ég fékk alltaf hausverk, nefrennsli og kláða eftir að ég borðaði´´. Vitiði, eyrun á mér urðu eins og á leðurblöku og augun stórar undirskálar. Ég er viss um að munnurinn náði líka niður á hné... þarna var semsagt skýringin komin, það er nikkel í öllum stálpottum (til að herða held ég). Ég fékk númerið hjá ,,pottakallinum´´ og hann er að koma til mín í kvöld og eldar fyrir mig og gesti mína. Ég hlakka til.
Svo á morgun er fermingarveisla. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, frænka mín er að ferma og hún er nú bara 2 árum eldri en ég, ótúlegt alveg hvað tíminn er fljótur að líða. Í gær bakaði ég uppáhalds kökuna mína, hef bakað hana í um 10 ár núna (talandi um að tíminn sé fljótur að líða!) og bara fæ aldrei leið á henni. Botninn er úr bókhveiti og svo er fylling með bönunum, döðlum og cashew hnetum. Ég tek með mér nokkrar sneiðar á morgun ásamt múffunum mínum. Hlakka líka til á morgun.
Ég þarf að koma út úr skápnum með svolítið: Ég hef aldrei fílað avakadó. Oft oft keypt það en oftast endað á því að henda því. Ég hef keypt það afþví að ég veit að það er svo hrikalega hollt og bestu olíur sem maður fær, en mig hefur alltaf klígjað við því að borða það. Svo núna undanfarið er ég búin að vera svo þurr (og kókosolían góða uppseld..) svo ég þurfti að finna eitthvað út úr þessu. Og þá gerðist það undarlega, ég stóð allt í einu fyrir framan avókadóin í Hagkaup og langaði geeeðveikt í. Var svona að spá hvort ég ætti að kaupa mér og hvort það færi ekki bara í ruslið en sá þá lífræn og ákvað að prófa. Ég er búin að vera að borða 2-3 Á dag takk fyrir og fæ ekki nóg. Já svona gerist þegar maður hlustar á kroppinn sinn.
Já, góð helgi framundan með fólkinu mínu
Hrönnsa
*inni þér eru svörin sem þú leitar að*
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 18:31
Hamingja
Það er þvílík gleði hér á bæ í dag. Ég bakaði fullkomnar glútenlausar múffur!! Þær eru mjúkar, loftkenndar og bragðgóðar. Er í skýjunum skal ég segja ykkur. Þetta er úr bók sem ég keypti um daginn og ég mun örugglega vera bakandi næstu vikur..hehe ekki slæmt. Ég nota reyndar agave sýróp í staðinn fyrir sykurinn og set ekki glassúr ofaná. mmmm. Og svo auðvitað verða allar kökur betri þegar þær eru geymdar í svona glerhjálmi, það er yndisleg tilfinning að lyfta hjálmnum af og næla sér í smá góðgæti. Vegna þess að ég gat ekki hamið þessa gleði mína að þá saumaði ég dúkinn sem er undir standinum sjálfum í kjölfarið (bara ræð ekki við mig). Blúndan er frá langömmu minni og það er svo ljúft að taka í sundur blúndu sem hún hefur rúllað varlega og fallega upp til að geyma.
Ég er að sauma ´penna´veski fyrir tréliti. Það eru 24 trélitir og hver litur hefur sitt efni í lit sem passar. Ég ætlaði upphaflega að gera tvö en hver er munurinn að gera 2 eða 6?? Ekki mikill svo ég er semsagt að gera 6 stykki. Klára vonandi fljótlega svo ég geti sett myndir inn, þá fattið þið hvað ég er að meina. (annars gæti ég örugglega gert 50 stykki og það sæi lítið á efnunum hjá mér).
Ég hefði sennilega ekki átt að vera að minnast á sumrin og það allt í gær því þegar ég leit út um gluggann í gærkvöldi var farið að snjóa...snjóa!! Ég tók strætó í vinnuna í morgun en svo er þetta nú að verða búið núna. Ég umvef mig bara blómum á meðan..já og kökum.
Ég ætla að næla mér í aðra múffu og fara svo að elda
knús á ykkur
Hrönnsan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2008 | 21:46
nóg að gera
Má ég kynna....Veigar Tjörva!! Þessi yndislega mynd fær mig alltaf til að hlæja (er annað hægt??). Ég tók hana (skellihlæjandi) í piparkökuáti á leikskólanum hans fyrir jólin síðustu (eins og sést á myndinni reyndar).
Það er ennþá brjálað að gera hjá mér í að svara síma könnunum. Ég er reyndar loksins búin að fá nóg og afþakka pent (ótrúlega dugleg). Það byrjaði reyndar þannig að ég var hálfsofandi og umlaði eitthvað á þá leið að ég gæti því miður ekki svarað og þá fattaði ég...hey svona virkar þetta þá!! (var samt bæði með móral yfir að hafa ekki svarað og þvílíkt forvitin á að vita hvað var verið að spyrja um). Um daginn spurði ég reyndar hvort ég væri á einhverjum lista eða álíka en nei ég er bara alltaf í ,,úrtaki´´ alveg spes fyrir þessa könnun...hmm ..ja hvað veit ég. Í gærkvöldi hringdi kona og bauð mér í nýjan bókaklúbb. Ég sagði henni sem var að ég væri bara með stóran stafla af bókum til að lesa, þá semsagt fattaði hún að ég les mikið (vúpps) og varð alveg óð í að fá mig í klúbbinn, en svo fékk hún hóstakast og skellti á mig (örugglega óvart samt). Ég bjóst nú alveg við því að hún myndi hringja í mig aftur en svo var ekki og ég var nú bara ánægð.
Litahringurinn gengur nokkuð vel. Ef þið notið röddina sem er í bíómynda-auglýsingunum þá er kannski verður þetta umræðuefni meira spennandi fyrir ykkur.... einn hringur..... 52 efni..... hver verður útkoman?.... nær hún að koma þessu saman??.... kemur í ljós tvöþúsund (og eitthvað... ef ég þekki mig rétt:)). En það er líka í lagi.
Ég labba alltaf í gegnum hljómskálagarðinn á leið í vinnu á morgnana. Ég vann nú þarna eitt sumar í unglingavinnunni svo á nú ýmsar góðar minningar sem ylja mér við gönguna (eins og þegar ein ónefnd braut gleraugun sín og sleit upp allar stjúpurnar í stað arfans, mjög vinsælt eða þannig). En ég hef tekið eftir því að hundaeigendur venja greinilega komu sína í garðinn líka því maður þarf að horfa vel hvar maður gengur, það er eins og rolluhjörð hafi farið um garðinn. Ætti ég að skrifa borgarstjóranum?? Hvað finnst ykkur að ætti að gera?? Mér finnst allavega að það ætti að koma upp ruslatunnum fyrir hundaskítinn því það er örugglega ekkert gaman fyrir hundaeigendur að setja þetta í vasann hjá sér. Kannski eru reyndar tunnur, hef svo sem ekkert spáð í því.... ég leita eftir þeim á morgun og læt ykkur vita. Magnea systir býr nú í Danaveldi og þar eru fleiri hundar en börn svo hún ætti að vita hvernig þeir tækla þetta og komið á svona símafundi við borgaryfirvöld eða eitthvað.
Já vorið er víst komið í danmörku, já já þetta kemur hjá okkur líka. Eða við vonum alltaf það besta og undirbúum okkur fyrir það versta hvað sumrin varðar... ætli það verði sumar í ár?? Já það er spurning.
Er farin að sjá rúmið í hyllingum. Hugsið vel um ykkur ...
knús, Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2008 | 18:52
Litahringur
Ég veit að þetta er slæm mynd en ég er sem sagt að sauma mér litahring (verður veggteppi) til að hafa uppi á vegg í stúdíóinu mínu. Auk þess er ég með þó nokkur verkefni í gangi eins og alltaf. Stofugólfið er undirlagt í efnum en þannig líður mér líka vel.
Annars gengur rosalega vel og allt er eins og það á að vera fyrir utan það að mér hefur tekist að næla mér í eitthvað glúten, er búin að vera mjög veik í dag, það varir oftast í um 3 daga þegar þetta gerist svo það er bara að bíða og passa mig ennþá betur.
Skrifa meira þegar orkan kemur til baka. Brosið framan í heiminn á meðan...
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 09:04
pasta pasta pasta
Ég bjó loksins til ravioli og var með kartöflu/spínat fyllingu ...mmm ótrúlega gott og eitthvað sem ég geri pottþétt aftur. Tók um 2 tíma allt í allt (suðan var svo lengi að koma upp á vatninu...haha) en maður er nú ekkert að spá í tímanum þegar er gaman. Þetta rauða sem þið sjáið eru granateplakjarnar sem ég er með æði fyrir þessa dagana og set þá út á allt en frysti líka og borða sem einskonar snakk. Í pastað notaði ég glútenlausa hveitiblöndu sem heitir einfaldlega ,,plain white flour´´ og fæst í heilsuhúsinu og nóatúni (og örugglega annarsstaðar). Endilega sendið mér bara póst ef þið viljið uppskriftina.
Ég er líka dottin inn í nýja Piccoult bók, um mann sem er dæmdur til dauða og ýmislegt tengt því. Ég hef alltaf átt vægast sagt mjög svo erfitt með að lesa og horfa á myndir sem fjalla um dauðarefsingar. Myndir eins og ,,green mile´´, ,,dead man walking´´ og ,,dancer in the dark´´ fara ekki úr huga mér. Mér finnst fáránlegt að árið 2008 sé enn notast við dauðadóma. Svo ég var mjög efins (vægast sagt) hvort ég ætti að lesa bókina en þar sem ég hef lesið 9 bækur eftir sama höfund og allar opnað augu mín fyrir ýmsu ákvað ég að gefa þessari séns. Hef ekki getað lagt hana frá mér svo það eru ágætis meðmæli. Bókin heitir ,,change of heart´´ og kom út í mars síðastliðinn.
Um daginn var ég stödd í maður lifandi og þar er kona að vinna sem heldur fyrirlestra sem kallast ævintýralíf. Ég ætlaði alltaf að fara í fyrra en varð ekkert úr svo ég spurði hana hvenær yrði aftur og hún var ekki viss. Svo rakst ég á auglýsingu fyrir nokkrum dögum síðan og var ekki lengi að skrá mig. Hún er alveg yndisleg þessi kona og ég upplifi hana alltaf eins og álf, hún hefur svo mikla útgeislun. Heimsasíðan hennar er: www.this.is/benna
Um daginn fór ég upp á grænan kost, hef ekki farið svo lengi og þar fékk ég það besta kartöflusalat sem ég hef á ævinni borðað...ó mæ goodddd hvað það var gott, vonandi tekst mér að fá uppskriftina því ég bara verð að geta búið það til. Krossið putta og tær.
Í dag er svo skipulögð Ikea ferð hjá mér og Jóhönnu vinkonu, allt of langt síðan við fórum síðast. Hvað þetta er með mig og Ikea ferðir?? veit ekki... en hey... mig vantar ýmislegt í þetta skiptið (í alvöru!) svo ég get réttlætt þetta.
Bókin bíður... ah laugardagar eru yndislegir dagar
Hafið það gott umhelgina
Hrönn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2008 | 16:50
Með grasið í skónum
Nei ég á ekki leynilegan aðdáanda sem skilur eftir blóm við tröppurnar hjá mér heldur kaupi ég þau sjálf einu sinni í viku af því að blóm gera mig hamingjusamari.....
Í gegnum árin hef ég verið með blóm í garðinum mínum yfir sumarið (nema árið sem ég reif þau öll upp og plantaði spínati og káli í garðinn). Ég er búin að vera að safna fjölærum plöntum, meðal annars frá ömmu á dalvík. En sumarblómin hafa verið í pottum frekar en beðum, enda er garðurinn ekki stór. Svo hef ég verið með ýmislegt eins og fuglabað, hengikörfur og styttur, oftast eftir einhverjar Ikea ferðir. En það hefur nokkuð skrýtið gerst... alltaf þegar fór að sjá á einhverju, brotnað upp úr potti eða eitthvað álíka að þá hvarf það alltaf úr garðinum. Mjög skrýtið en partur af tilverunni. Svo var ég í gönguferð um hverfið um daginn (eins og svo oft áður) og stoppa til að dást að kofa í einum garðinum. Hann er ótrúlega krúttlegur, með svölum uppi og hlera til að komast á þær. Og hvað haldiði? á svölunum var allt draslið úr garðinum mínum..... ég stóð þarna og hló og hló, mér finnst þetta alveg æði. Þarna er einhver kofaeigandi að fylgjast með garðinum mínum (svona ´´stakeout´´) og nappar hinu og þessu til að gera fínt hjá sér...hey maður reddar sér ekki satt?
Annars er allt fínt að frétta héðan. Ég er að klára umsóknina mína til englands og sendi hana á morgun (skrifa þetta hér svo ég standi við það). Annars er ég búin að vera að sauma mikið og mun halda því eitthvað áfram næstu daga. Keypti krúttlegustu náttföt sem ég hef séð á Veigar áðan, með mynd af Einari Áskel framan á. Honum gengur rosalega vel á nýja leikskólanum í danmörku, gaman að fylgjast með.
jæja, hef þetta stutt núna svo ég komi einhverju í verk.
Það hjálpar okkur oft að í staðinn fyrir að pirrast út í einhvern að muna að allir í kringum okkur elska einhvern og hafa misst einhvern, svo verum góð við hvort annað
Hrönnsa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)